Brot úr viðtali í Flugið nr.11 við Elmar Gíslason sem hóf þjálfun hjá Korean air

HVERNIG GEKK ÞJÁLFUNIN FYRIR SIG?

Nú tók við einhver sérkennilegasti kafli í mínu lífshlaupi. Línuþjálfun nýrra flugmanna hjá KAL er að flestu leyti mjög frábrugðin því sem við þekkjum hér á Vesturlöndum. Þeir kalla þetta „OE training“ (operational experience). Krafan er að menn fljúgi 14 leggi og taki í framhaldinu próf (aðeins minna ef menn eru með reynslu á vélina). Menn eru settir undir „leiðsögn“ kóresks þjálfunarflugstjóra og fljúga nær eingöngu með þeim aðila fram að prófi að undanskildu 1-2 flugum í upphafi. Þeir eru með nokkra erlenda þjálfunarflugstjóra sem fara fyrstu ferðina eða tvær með nýliðunum til að koma þeim á sporið áður en þeir eru settir í hendurnar á Kóreumönnum.

Ég fór tvö flug með bandarískum flugstjóra. Ég rakst á hann í mann- fögnuði nokkru áður en ég fór fyrsta flugið. Hann var að segja frá afar sérkennilegum fundi sem hann hafði setið ásamt yfirflugstjóra og öllum þjálfunarflugstjórum á B777. Þar sagði yfirflugstjórinn berum orðum að af öllum flugvélategundum KAL, þá væru flestir nýliðar að sleppa í gegn á B777. Sá ameríski sagðist hafa kveðið sér hljóðs og bent á að kannski væri nýþjálfun á B777 flota félagsins bara mjög góð og/eða að nýir menn væru bara vel undirbúnir. Svarið sem hann fékk frá yfirflugstjóranum var stutt og einfalt, „Nei“.