Víða er komið við að vanda í þessu tólfta tölublaði Flugsins. Matthías Sveinbjörnsson upplýsir okkur hvernig maður ber sig að til að ná sér í sjóflugsréttindi en hann skellti sér vestur til Seattle til að ná sér í slík réttindi.
Drónar eru sífellt meira í umræðunni og hér skoðum við hvernig áhugamaður um slík tæki ber sig að við smíði þeirra og hvernig er hægt að nota þessi flygildi sér og öðrum til gagns og skemmtunar.
Sæmi Guðmunds tók sér leyfi frá atvinnuflugmennsku á Íslandi og kíkti til Kína þar sem hann flýgur nú B757 fyrir S.F. Airlines. Í þessari skemmtilegu grein fáum við að vita hvernig ferlið er að slíku starfi, hvað er það sem heillar og hvað er öðruvísi þarna hinum megin... það er jú ansi margt.
B757 hefur þjónað Íslendingum í meira en 20 ár og ekkert útlit fyrir að verið sé að skipta henni út í bráð. Við skoðum forsögu þessarar merku vélar í mjög svo fróðlegri grein þar sem við njótum liðsinnis Leifs Magnúsar sem var einn af lykilmönnunum hjá Flugleiðum þegar ákveðið var að velja 757 til félagsins.
Nýjastu græjur í veðurmælingum eru skoðaðar af Birtu Líf veðurfræðingi og sjáum hvernig Icelandair ætlar að innleiða slíkt í vélar sínar.
Það eru ekki bara pakkaferðir í Bláa lónið og á þingvelli sem seldar eru úlendingum heldur hefur Íslendingur nokkur sem rekur ferðaskrifstofu í Þýskalandi verið að selja einkaflugmönnum þar í landi ferðir til Íslands það sem síðan er flogið um ladið á minni vélum. Menn eiga vart orð til að lýsa ánægju sinni eftir slíkar reisur.
Flugmódelsvifflugur skoðaðar, flugsumarið gert upp, heimsókn á flugsýningu, reynsluflug, græjupróf og hugleiðingar Júlla Heiðars eru einnig það sem má finna í blaðinu.